154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

skipulagslög.

628. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hleyp hér í skarðið fyrir 1. þm. Norðaust. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem felast í því að hafi framkvæmdir við uppbyggingu í íbúðabyggð eða á svæði þar sem íbúðabyggð er heimiluð ekki hafist innan fimm ára frá birtingu samþykkts deiliskipulags skuli sveitarstjórn, áður en ákvörðun er tekin um samþykkt byggingaráforma, meta hvort þörf sé á því að skipulagið verði uppfært í heild eða að hluta. Þá er lagt til að sveitarstjórn geti kallað eftir skýringum og framkvæmt mat hafi engin umsögn um byggingaráform verið lögð fram á umræddum tíma. Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að framkvæmdir við uppbyggingu íbúða gangi eftir án ástæðulausra tafa.

Svo að ég fari aðeins yfir forsögu þessa frumvarps þá skilaði starfshópur forsætisráðherra skýrslu um umbætur á húsnæðismarkaði á vormánuðum ársins 2022. Ein þeirra tillagna sem þar var lögð fram beindist að því að skoða hvernig unnt væri að bæta stöðu sveitarfélaga til að knýja á um framgang samþykkts deiliskipulags á reitum þar sem tafir verða á framkvæmdum en aðrir aðilar en sveitarfélög fara með forræði máls. Sama ár var undirritaður rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Aðgerð D6 í aðgerðaáætluninni í viðauka við þann samning kvað á um að samið yrði frumvarp um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags.

Frumvarpi þessu er ætlað að fylgja eftir framangreindum tillögum sem fram hafa komið í vinnu stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði um aðgerðir til að auka framboð á íbúðarhúsnæði og bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Meiri hlutinn telur frumvarpið framfaraskref sem er til þess fallið að stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja frekara framboð íbúðarhúsnæðis. Meiri hlutinn telur lögfestingu þeirra heimilda sem lagðar eru til í frumvarpinu mikilvægar enda stuðla þær að því að framkvæmdir við uppbyggingu íbúða gangi eftir án ástæðulausra tafa sem gætu annars haft áhrif á framboð og haft óhagræði og kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög. Þá tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ASÍ til nefndarinnar að breytingin muni auka fyrirsjáanleika í uppbyggingaráformum sveitarfélaga og framkvæmd á samþykktu deiliskipulagi.

Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund. Umsagnir bárust og greint er frá því í nefndarálitinu sem liggur fyrir.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar árétta sérstaklega:

Um gildistöku og afturvirkni segir: Nefndin fjallaði um gildistöku og afturvirkni frumvarpsins. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að frumvarpið hefði og/eða ætti að hafa afturvirkt gildi og taki þá til þegar samþykkts deiliskipulags og þeirra lóða þar sem framkvæmdir við uppbyggingu eru ekki hafnar.

Meiri hlutinn telur rétt að árétta að sú meginregla gildir að íslenskum rétti að íþyngjandi réttarreglum verður almennt ekki beitt með afturvirkum hætti. Sú regla byggist á réttaröryggissjónarmiðum og að borgararnir geti kynnt sér þær reglur sem í samfélaginu gilda á hverjum tíma og hagað athöfnum sínum eftir því. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn einnig á að takmörkuð óbein eignarréttindi, svo sem afnotaréttur af landi eða önnur fjárhagsleg réttindi sem tengjast nýtingu lands eða lóða, geta notið verndar ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn ekki til breytingar á frumvarpinu í þá veru að ákvæði þess hafi afturvirk réttaráhrif.

Um tímamark segir: Þá fjallaði nefndin um það tímamark sem miðað er við í frumvarpinu sem eru fimm ár frá birtingu samþykkts deiliskipulags. Þær umsagnir sem bárust um málið voru almennt jákvæðar en athugasemdir umsagnaraðila sneru aðallega að fimm ára tímamarkinu og komu fyrir nefndinni fram sjónarmið um að miða ætti við lengri eða skemmri tíma en mælt er fyrir um í frumvarpinu. Hagsmunasamtök heimilanna telja viðmiðunartímann of langan auk þess sem hvata skorti til uppbyggingar. Samtökin telja að taka mætti til athugunar að veita sveitarfélögum heimildir til að beita dagsektum og jafnvel að afturkalla lóðaúthlutanir. Öryrkjabandalagið, réttindasamtök leggja til að útfærð verði neðri og efri tímamörk og með því sé hægt að byggja skilvirka hvata, t.d. með álagningu fasteignaskatts á auðar lóðir, auk stjórnvaldssekta í samræmi við verðmæti lóða og áætlaða stærð mannvirkis í fermetrum.

Í greinargerð með frumvarpinu er rakið að í ljósi þeirra umsagna sem bárust við frumvarpsdrögin hafi sá viðmiðunartími sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins verið styttur úr sjö árum í fimm ár. Meiri hlutinn telur ekki nægjanleg rök standa til þess að breyta framangreindu tímamarki sem er að hans mati hæfilegt og falli að markmiðum frumvarpsins.

Að lokum segir um breytingar: Meiri hlutinn leggur til tæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið og er nánar gerð grein fyrir í nefndaráliti.

Að framansögðu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita hv. þingmenn, sá sem hér stendur, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Ingibjörg Isaksen.